Þróun og prófanir á spilinu

Spilið var þróað með nemendur frá elstu deild í leikskóla upp í elstu nemendur í grunnskóla í huga og hefur það verið nota í vettvangsnámi, sem og í kennslu. Spilið hefur verið notað í bókstafakennslu þar sem nemendur þurftu að þekkja bókstafina og hljóð þeirra, einnig í íslensku, stærðfræði, ensku en hefur mest  verið notað í dönsku. Það veltur mikið á kennurum hvernig þeir vilja nota spilið í sinni kennslu.

Síðastliðið haust var spilið prófa í starfsþróunarverkefni á námskeiðinu Nám og kennsla: Fagmennska í starfi. Í þessu verkefni var ákveðið að skoða betur og rannsaka hvernig nemendum líkaði spilið. Framkvæmdin var nokkuð einföld. Fjögur spil voru notuð sem þegar höfðu verið búin til. Það er einfalt að breyta um áherslur í spilinu og það tekur einungis stuttan tíma að skipta út blöðum (með orðum eða myndum) í plastvösunum. Spilið var notað eins og áður sagði, aðallega í dönskukennslu og fóru áherslurnar alfarið eftir því sem verið var að vinna með hverju sinni, í hverjum bekk fyrir sig. Ein reglan í spilinu er sú að hafa ekkert spilanna með sömu þemu og nemendur skipta um þemu eftir ákveðinn tíma. Þrjú af þemunum hafa ávallt eitthvað með dönsku að gera og það efni sem verið er að vinna með, en eitt af þemunum er með orðum á íslensku. Í íslenska þemanu eiga nemendur annars vegar að lesa orðið sem þeir lenda á og hins vegar þurfa þeir að koma með hljóð orðsins. Ef nemandi fer t.d. á reit þar sem stendur Kisa að hvæsa þá þarf nemandinn að hvæsa. Sá sem snýr snúningsskífunni þarf ávallt að segja líkamshlutann og litinn á dönsku.

Í þeim fimm bekkjum sem nemendur tóku þátt voru nemendur jafn ólíkir og þeir eru margir. Í þessum bekkjum voru fimm nemendur með einhverfu, tveir nemendur með þroskaröskun, fjórtán tvítyngdir nemendur, fjöldinn allur af nemendum með ADHD og sama má segja um fjöldann af nemendum sem glíma við lestrar- og námsörðugleika af einhverju tagi. Eins og sjá má er flókið að koma til móts við þarfir allra nemenda og var spilið prófað til að sjá hvort áhugi á námsefninu myndi kvikna hjá nemendum.

Niðurstöður athugunarinnar komu nokkuð óvart, sökum þess að nemendur sem iðulega eru neikvæðir og oft á tíðum óvirkir í tímum, blómstruðu í spilinu. Þessir nemendur tóku fullan þátt í því sem átti að gera og voru yfirleitt fremstir í flokki með að leiðrétta aðra. Rætt var við nemendur um spilið meðan á leik stóð og þegar einn ungur drengur var spurður um álit á spilinu, var svarið: „Þetta er geggjað skemmtilegt! Af hverju getum við ekki gert þetta oftar? Ég hélt ég kynni ekkert í dönsku, en ég get svarað öllu sem kemur hérna!